Horn III slhf., framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur keypt 40% hlut í Bílaleigu Flugleiða ehf. af stjórnendum félagsins sem eiga eftir viðskiptin 60% hlut. Bílaleiga Flugleiða ehf. var stofnuð árið 1971 og hefur verið sérleyfishafi bílaleigunnar Hertz á Íslandi frá árinu 1973. Hertz er leiðandi alþjóðleg bílaleiga sem á eitt þekktasta vörumerki heims og er með um 8.500 leigustöðvar í 150 löndum.
Horn III er 12 ma.kr. framtakssjóður stofnaður af Landsbréfum en hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Horn III fjárfestir í óskráðum íslenskum fyrirtækjum með trausta og góða rekstrarsögu. Stjórnendur Bílaleigu Flugleiða og stjórnarmenn eru Hendrik Berndsen, Sigfús B. Sigfússon, Sigurður Berndsen og Sigfús R. Sigfússon.
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og Brandsvik Corporate Finance voru ráðgjafar seljenda og stjórnenda. Akrar Consult og Pacta lögmenn voru ráðgjafar Horns III.
Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz: “Bílaleiga Flugleiða hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár, reksturinn hefur verið farsæll síðustu ár og mikil tækifæri eru enn til staðar. Núna er góður tímapunktur til að fá inn öflugan aðila í hluthafahópinn sem styrkir félagið enn frekar og áherslur Horns III falla mjög vel að framtíðarsýn stjórnenda félagsins. Horn III hefur nú þegar fjárfest í fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tækifæri felast í samstarfi þessara félaga við Bílaleigu Flugleiða á komandi árum. Yfirlýst stefna Horns III er að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í til að hámarka arðsemi, með góða stjórnarhætti að leiðarljósi og standa væntingar til að aðkoma Horns III að rekstrinum styrki og efli félagið á komandi árum. Saman munu stjórnendur og Horn III halda áfram uppbyggingu Bílaleigu Flugleiða en félagið byggir á traustum stoðum, það er fjárhagslega sterkt, með þekkt vörumerki, framúrskarandi starfsmenn og trausta viðskiptavini. “